Hátíðirnar draga oft fram það besta og versta hjá fólki og fjölskyldum. Þetta ár hefur kannski verið sérstaklega einkennilegt, tímaskynið er svolítið breytt og samskipti flestra verið með minna móti.
Áramótapartíið verður væntanlega fámennara en mörg fyrri ár sem er vonandi þægilegra en hér eru nokkrir punktar til að hafa í huga svo fjölskyldusamveran megi vera sem best.
Viðmótið þitt skiptir máli. Fyrst er að skoða manns eigin viðbrögð, framkomu og viðmót og passa að vera meðvitaður um eigin framkomu. Með því að mæta til leiks meðvitaður um eigin líðan og meðvituð/-aður um framkomu sína og viðmót er hálfur sigurinn oft unninn.
Vertu raunsær um samkomuna og með raunhæfar væntingar. Flest boð eru svipuð ár frá ári, sama fólkið, svipað umræðuefni, svipaður matur með einhverjum blæbrigðum. Ef einhver ættingi segir alltaf óviðeigandi brandara má gera ráð fyrir því að sama verði upp á teningnum í ár og þá er hægt að vinna með hvernig maður ætlar að bregðast við frekar en að setja orku í að vona að orðin komi ekki.
Viðbrögðin okkar er um það bil það eina sem við getum stjórnað. Með því að sleppa tökum á hegðun, viðbrögðum og líðan annarra minnkar spennan talsvert. Við getum ákveðið að hunsa brandara, tala ekki um eitthvað ákveðið, segja okkar skoðun, vera meira með börnunum en við getum ekki stjórnað og stýrt öðrum.
Sleppum áfengi ef það er í boði. Áfengi getur svo auðveldlega gert hlutina skrýtnari, leiðinlegri og hömlulausari.
Ef ákveðin umræðuefni, atburðir, minningar eru líkleg til að hleypa hita í fólk getur verið gott að forðast þær eða nálgast af mikilli varúð og stundum er gott að vera með æfð viðbrögð við ákveðnu umræðuefni. ,,Ég upplifi þetta ekki svona en mig langar að tala um eitthvað annað" eða eitthvað ámóta sem hjálpar manni að setja mörk og fara ekki inn í samtöl sem eru erfið.
Hugsaðu vel um sjálfan þig á þann hátt sem þú þarft. Ef fjölskylduboð reyna á er gott að passa upp á hvíld, hreyfing og vera meðvitaður um að gera hluti sem veita manni hugarró og gleði.
Comments