Í góðu sambandi er mikilvægt að finna að maður tilheyri maka sínum og skipti hann máli. Þessi grunnþörf að elska og vera elskaður, geta þegið og gefið. Í langtímasambandi er mikilvægt að byggja sambandið á vináttu þar sem traust ríkir og báðir aðilar eru ábyrgir fyrir þeirri uppbyggingu. Vinátta felur í sér að hlusta í gleði og sorg, vináttan felur í sér að taka makanum eins og hann er og vera áhugasamur og vakandi fyrir því sem hann er að segja. Í parasambandinu er mikilvægt að geta lesið hinn aðilann og viðurkennt hann og séð hann fyrir það sem hann er. Parið verður að geta viðurkennt hvort annað án þess að gera kröfu um að það deili sömu skoðunum og tilfinningum.
Við það að eignast barn stendur parasambandið oft á tímamótum, framundan er nýr og spennandi tími í lífi fólks og að mörgu að hyggja. Flestir vilja hlúa að og rækta parasambandið sitt á þessum tíma. Nokkuð hefur verið skoðað hvað einkennir gott samband, slíkar upplýsingar fást meðal annars með því að tala við pör um upplifun þeirra og greina reynslu þeirra.
Bandaríski hjónabandsráðgjafinn John Gottman bendir á að traust byggist hægt og rólega upp og er lykilþáttur í hjónaböndum. Þetta benda fleiri rannsóknir á. Traust er grunnþáttur í öllum samfélögum og veitir öryggiskennd og vellíðan. Traust er að vera meðvitaður um líðan makans, vilja snúa sér að honum tilfinningalega, reyna að skilja hann og geta brugðist við í samhygð. Traust er ekki síður mikilvægt í vanmætti, maður verður að geta sýnt viðkvæmar hliðar og treyst makanum fyrir þeim. Traust er tvíhliða sem báðir aðilar eru ábyrgir fyrir.
Gagnkvæm virðing einkennir gott samband og hana er hægt að tjá á ýmsan máta. Virðing er að njóta félagsskapar makans, þekkja hann og viðurkenna með kostum og kynjum. Þekkja vonir hans og drauma, gleði og sorg. Virðing er að láta sig maka sinn varða, hlusta á hann og það sem hann hefur að segja sem og að reyna að skilja hann, ekki í hvunndeginum. Hlusta til að skilja ekki til að fá orðið.
Stuðningur og umhyggja er þýðingarmikill fyrir sambandið þar sem parið er næmt á þarfir hvors annars. Stuðningur er að sýna í verki að maður er vakandi fyrir því sem þarf að gera eða segja og vilja liðsinna maka sínum. Stuðningurinn skiptir miklu máli þegar reynir á. Hann felur í sér meira en að sýna samúð, hann felst í því að taka að sér aukin verkefni og skuldbindingar þegar makinn þarf að jafna sig. Stuðningur og umhyggja er að setja sig í spor makans og hafa löngun til að hlífa honum á erfiðri stundu. Stuðningur og umhyggja gerir hversdaginn þægilegri og sambandið nánara. Með stuðning og umhyggju að leiðarljósi er líklegra að hægt sé að ræða málin þegar á reynir og finna farsælan endi eða lausn á verkefnunum sem parið stendur frammi fyrir.
Gleði, húmor og að horfa í smáu augnablikin skiptir máli í samskiptum parsins. Að geta séð hið jákvæða og glaðst yfir því smáa. Finna stund til þess að njóta og upplifa saman styrkir sambandið. Grínið má þó ekki yfirtaka samskiptamáta parsins þannig að öllu sé slegið upp í grín.
Ekki er sjálfgefið að samband gangi og sjaldnast tilviljun að gott samband er gott. Atriðin sem hér hafa verið nefnd, vinátta, traust, virðing og gleði eru burðarliðir í góðu sambandi og byggja grunn undir sambandið svo það geti þroskast áfram og þróast. Með þessa burðarliði getur par gengið í gegnum tímabil og tímaskeið með sínum sérkennum og tekist á við verkefnin sem upp koma.
Komentáře