Við heyrum oft að makinn hlusti ekki á mann, að það skipti ekki máli hvað sé sagt að það skili sér ekki.
Slíkt er auðvitað leiðinlegt í samböndum og eitt af því sem pör kunna oft best að meta í sínum samskiptum er að makinn hefur áhuga, hlustar og endurspeglar upplifun manns.
Það er engin tilfinning sem jafnast á við það að einhver hlusti á mann af athygli og flest okkar getum bætt okkur í virkri hlustun, þar sem við hlustum á maka okkar af áhuga.
Hitt er nefnilega auðvelt, að gleyma sér í amstri dagsins og skiptast bara á skipunum hægri vinstri.
Ekkert par er endalaust í virkri hlustun og það er ekki gott ef hún er aldrei til staðar. Oft er stórt skref í aukinni nánd milli para að setja sig í stellingar og fara að hlusta af athygli á makann, gefa sér tíma til að hlusta, skilja og spjalla um upplifunina. Vera aftur forvitinn og áhugasöm/-samur. Svo hitt að leggja sig fram um að skilja makann og sýna honum skilning.
En kannski er langt síðan og streitan og álagið farið að setja sitt mark á samskiptamynstrið. Þá er gott að staldra við og setja sér það að spyrja spurninga í áttina að:
Hvernig upplifun var þetta fyrir þig?
Viltu segja mér aðeins betur frá þessu?
Af hverju var þetta svona gott/ ömurlegt?
Er staðan/atvikið s.s. svona? (endursegið)
Þarna er maður að gefa makanum færi á að segja betur frá, skilja sig betur og fá athygli frá makanum meðan maður setur sig inn í að hlusta, af athygli og þá er líka mikilvægt að passa að vera í liði með makanum:
Það er rosalegt að heyra, ég skil þig vel
Ég hefði líka alltaf brugðist við
Meikar sens
Ég get mátað mig inn í þessar aðstæður.
Stundum vantar okkur að upplifa að makinn sjái mann eins og maður er núna og tengingin sem kemur í kjölfar þess að setja sig í stellingar, hlusta, vera með í liði og hlusta er ótrúlega góður grunnur að betri og sterkari tengingu og bættum samskiptum.
Comments