top of page

Parasambandið í Covid

Ég held það hafi aldrei verið mikilvægara en núna að hlúa að okkur sjálfum og samböndunum í kringum okkur. Álag eins og Covid reynir oft hvað mest á nánu samböndin okkar. Stundum þegar það er ,,ytra" álag eins og heimsfaraldur, fjárhagsáhyggjur, náttúruvá, þá gleymir maður að gera ráð fyrir því hvað því fylgir mikil streita og hugsar með sér að þetta sé bara maður sjálfur sem er eitthvað ekki með þetta alveg á hreinu en um leið og ytri þættir ,,lagast" eða ,,róast" finnur maður ótrúlegan létti.
Fyrst og síðast held ég að setja verði fókusinn á okkur sjálf. Byrja á því að hugsa um okkur, okkar líðan, okkar framkomu og skapa rútínu sem veldur vellíðan. Sama hvað það er eða hvernig það er framkvæmt. Göngutúr, tebolli ein/n, hugleiðsla, önnur hreyfing, hitta vini. Eitthvað hvunndagslegt sem að hjálpar fólki að kjarna sig, róa taugakerfið og anda léttar á eftir að skila sér út í öll sambönd ,,setjið súrefnisgrímuna fyrst á yður..."


Í annan stað er mikilvægt að sjá til þess að makinn geti upplifað og gert slíkt hið sama. Skapa rými svo hinn aðilinn geti haft fókus á sjálfan sig svo hann geti líka hugsað um aðra og brugðist vel við.


Þá að vanda sig í að vera skýrari í skilaboðum, óskum og beiðni. Biðja um það sem maður vill eða telur sig þurfa á að halda og tjá það áður en maður finnur fyrir gremju. Við erum að upplifa hluti í samfélaginu sem við höfum lítið látið reyna á til lengri tíma áður og það kallar á að við breytum mörgum þáttum hjá okkur. Hugsanalestur er misskildasta skilaboðaskjóða sem vitað er um og algerlega ofnotuð, það er ekki hægt að lesa hugsanir annarra og leiðir frekar til misskilnings. Að ætla öðrum hugsanalestur gefur líka minna rými fyrir þroska og nýja nálgun.


Samtal um praktíska nálgun- endurskipulag á utanumhaldi og húshaldi er örugglega nauðsynlegt núna þegar fjarvinna er meiri og samveran meiri. Er hægt að passa að skipta verkum betur upp svo meira jafnvægi náist? Eru allir sáttir með verkframlag og verkaskiptingu eins og staðan er núna og hvernig viljið þið hafa þetta næstu 2-3 vikurnar?


Hlátur lengir lífið og gerir heimilishald og sambönd léttari og viðráðanlegri, hvenær hlóuð þið síðast saman? Hvað fær ykkur til að hlæja og hvernig getið þið skapað aðstæður þannig að þið sjáið húmorinn og gleðina í hlutunum? Gerið meira af því!
13 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page