top of page

Skilnaður með ung börn

Það getur verið mikil áskorun að útskýra fyrir ungu barni að samvistum foreldra sé lokið. Að sama skapi er erfitt fyrir ungt barn að skilja aðskilnaðinn og átta sig á aðstæðum. Fæstir eru í sínu besta standi meðan stendur á skilnaði og því fylgir mikil áskorun að geta verið til staðar á streitumiklum tímum.

Börn sem eru rúmlega 2 ára eru farin að móta rökhugsun svo það er alveg hægt að hjálpa þeim að skilja og finna út úr málunum en svo ung börn vilja og þurfa mikla endurtekningu. Rétt eins og í leik, færni og öðru þurfa börn mikla endurtekningu í tali og athöfnum svo búðu þig undir að þurfa að tala mikið og oft um skilnaðinn og hvernig hlutirnir eru. Með hverri vikunni bætist svo þroski og skilningur við færni barnsins.


Það getur verið klókt að hafa sem flest formsatriði á hreinu áður en barnið fær útskýringu á skilnaðinum svo sem eins og hvar það foreldri sem flytur út ætlar að búa og í raun er best ef hægt er að heimsækja staðinn um það leiti sem barnið fær fréttirnar.

Hér er einfaldleikinn bestur í útskýringum sem dæmi,,Pabbi þinn ætla að flytja í nýja íbúð á morgun og þú ætlar að búa hér með mér. Svo verður þú stundum hérna hjá mér og stundum muntu vera hjá pabba þínum".


Það er ekki líklegt að barnið geti áttað sig vel á því afhverju þið eruð að fara í sitthvora áttina svo það er gott að halda sig við einfaldar útskýringar sem barnið skilur, með auknum þroska, eftir því sem barnið eldist er hægt að gefa því nánari upplýsingar og skýringar en passa ætíð að hafa útskýringarnar með þroska og aldur barnsins í huga.


Börn taka breytingunum á ólíkan máta og það má búast við því að barnið sýni einhverja breytingarhegðun í marga mánuði á eftir, þá er gott að geta tekið á móti tilfinningum barnsins, rætt við það og hughreyst það og huggað. Það er mjög líklegt að barnið þurfi og vilji sannfæringu á að það sé enn elskað, það sé öruggt og að báðum foreldrum sé annt um það og vilji vera með því.

Verið líka undirbúin fyrir spurningar sem skipta barnið miklu máli eins og hvar bangsinn á að eiga heima eða hvort það megi fá súkkulaði á kvöldin hjá öðru hvoru og hvernig það kemst í leikskólann.


Margir foreldrar tala um að finna aukna viðkvæmni og meiri pirring hjá börnum sínum í einhvern tíma eftir skilnaðinn án þess að hægt sé að setja fingur á það sem er að gerast.


Gætið þess að hafa skipti og umgengnisfyrirkomulag skýrt, sem rætt er um oft og á máli barnsins og sjónrænar vísbendingar geta verið góðar eins og að setja upp plan fyrir 3-4 daga fram í tímann eða teikna inn hvenær það eru skipti eða heimsóknartími hjá hinu foreldrinu. Hér er líka gott að vera undirbúinn fyrir að þurfa að svara spurningum um hvar og hvenær mjög oft, sem er liður að reyna að skilja aðstæður betur hjá barninu og gott er að setja þolinmæði í.Flest börn á leikskólaaldri óttast að vera yfirgefin og er mjög annt um að tilheyra og vera með foreldrum sínum og þá er gott að fullvissa barnið um það oft og reglulega og ef manni finnst barnið vera að hafa áhyggjur af því að setja orð á það.

Það getur verið gott að hafa í huga að lítil börn ruglast auðveldlega og það vaknar auðveldlega von í brjósti barna um að foreldrar þeirra taki aftur saman, því er enn mikilvægara að samskipti séu skýr og oft og vel sé útskýrt fyrir börnum að þau séu ekki lengur saman.


Gætið þess vel að hallmæla ekki hinu foreldrinu, ekki fyrir framan barnið né þegar það á að vera farið að sofa eða þegar að þið haldið að það heyri ekki. Barn ætti í raun ekki að vera í aðstæðum þar sem það gæti heyrt illt eða erfitt umtal um foreldri sitt því barn elskar báða foreldra sína og á sitt samband við foreldrið þó samvistum foreldranna sé lokið.


Knús, skýr samskipti, endurtekning og rólegheit gera sambandsslit eins einföld og hægt er í flóknum aðstæðum.


779 views0 comments

Recent Posts

See All

留言


bottom of page