top of page

Undirbúningur fyrir fæðingu skiptir máli

Stundum heyrir maður því fleygt að réttast sé að undirbúa sig ekki of mikið fyrir fæðingu og gera sér ekki of miklar vonir um útkomuna, því maður verður svo svekktur ef hlutirnir fara svo á annan veg.


Þetta hlýtur að vera sagt í góðri trú og til að vernda barnshafandi konur en þetta eru ekki góð ráð. Sannleikurinn er samt sá að það margborgar sig að undirbúa sig vel fyrir fæðingu á allan hátt og því betur sem kona er undirbúin fyrir fæðingu því meiri líkur eru á að fæðingin fari á þá leið sem hún kýs. Það á við um allar fæðingar.


Góður undirbúningur er ekki trygging fyrir því að allt fari samkvæmt áætlun en maður hefur aukið líkurnar til muna. Liður í undirbúningi er líka að taka með sér æðruleysið og taka því sem að höndum ber. Þannig er undirbúningur líka liður í að setja orð á væntingar, skoða raunveruleika og máta sjálfan sig í því ferli.


Fæðing er nefnilega einn stærsti viðburður í lífi konu, ef ekki sá stærsti og það er alveg sama hvernig sú lífsreynsla verður, hún kemur til með að dvelja í huga konunnar lengi, ef ekki alla ævi. Fari allt vel man kona það og fari hlutirnir illa man kona það líka.


Kona sem fer vel undirbúin í sína fæðingu er betur í stakk búin til þess að vinna úr sinni reynslu t.d. ef fæðingin verður henni erfið. Af hverju?  Jú hún er nefnilega undirbúin, og yfirleitt þegar maður er undirbúinn er maður líka búinn að skoða ,hvað ef“-ið sitt ef hlutirnir fara ekki eins og maður leggur upp með.




Fæðing er stórviðburður, henni er oft líkt við maraþon eða fjallgöngu. Það er ágæt samlíking þó hún hafi svo sem sínar takmarkanir líka.

Þegar maður hittir einhvern sem ætlar í fjallgöngu þá er hinsvegar allt annað viðhorf til undirbúnings. Þá er talað um mikilvægi þess að vera vel undirbúinn, líkamlega sem og andlega. Fjallganga er þrekraun sem reynir á líkama og sál og allir vita að ef þú leggur af stað vanbúinn getur farið illa.


Hvernig fer í fjallgöngunni er að miklu leyti undir undirbúningnum komið. Það er ekki trygging fyrir því að allt fari vel en eykur líkurnar til muna. Liður í undirbúningnum er að vera í góðu líkamlegu formi, lesa sér til um fjallið og aðstæður, tala við fólk með reynslu af svæðinu, umkringja sig fólki sem hefur áhuga á því sem maður tekur sér fyrir hendur og góður aðbúnaður.

Engum heilvita manni dettur í hug að segja við fjallgöngumann ,,Ekki undirbúa þig of mikið. Þú verður svo hrikalega svekktur ef þú fótbrotnar á leiðinni upp og kemst ekki á toppinn einn þíns liðs. Tala nú ekki um svekkelsið ef þú þarft hjálp á miðri leið”.

Það vita allir að ef eitthvað kemur upp á í fjallgöngu að það eru ofboðsleg vonbrigði sem getur tekið langan tíma að jafna sig á. Vel undirbúinn fjallgöngumaður er hinsvegar fljótari að jafna sig á vonbrigðunum, því hann var undirbúinn og áttar sig á því að hann hafði gert allt sem í sínu valdi var og svo fór sem fór.


Hér gildir sama lögmál, góður undirbúningur eykur líkurnar á góðri útkomu en auðvitað er ekki hægt að ganga að útkomunni. Því er um að gera að sökkva sér í bókalestur, umvefja sig jákvæðum fæðingarsögum, sækja slökun og fara á mörg námskeið og njóta þess að vera að undirbúa stærsta viðburð lífsins. Liður í undirbúningi er að rækta æðruleysi sem hjálpar til við allar ákvarðanir þegar stóra stundin er runnin upp.


149 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page