Þegar fólk hefur tekið ákvörðun um að fara í sundur koma oft vangaveltur um tvennt varðandi börnin.
Hvernig eigum við að segja þeim frá skilnaðinum?
Hvað eigum við að segja börnunum okkar um skilnaðinn?
Flestum finnst gott að vera búin að hugsa þessi tvö atriði ágætlega áður en að talað er við börnin.
Veljið tíma þar sem þið getið verið öll saman og segið frá skilnaðinum og veljið tíma þar sem þið hafið tíma eftir að hafa sagt frá til að ræða málin og gætið þess að vera viðbúin því að spjalla um skilnaðinn næstu daga. Hvaða dag skiptir ekki nákvæmlega máli en það er mikilvægt að bæði hafi rými næstu daga á eftir til að vera tilfinningalega til staðar fyrir börnin. Þetta getur auðvitað verið erfitt þar sem skilnaður er yfirleitt sár og mikið tilfinningaumrót og þá er gott að minna sig á að maður þarf ekki að vera vél sem ekkert sér á heldur manneskja sem leiðir ferlið og ber ábyrgð.
Verið búin að ákveða hvað þið ætlið að segja börnunum um af hverju þið eruð að skilja. Verið með sameiginlega ábyrga frásögn um hvernig skilnaðurinn kom til. Mikilvægt að hafa í huga að segja aldurstengt viðeigandi frá, taka sameiginlega ábyrgð á skilnaðinum og koma því skýrt til skila. Í frásögninni skiptir í raun mestu máli að koma tvennu að:
- hvernig börnin muni búa og verja tíma sínum
- að þau bera enga ábyrgð, nú né þá, á skilnaðinum.
Það hjálpar börnum ekki að vera nákvæmur í frásögn eða segja dæmandi frá
svo sem að segja að annað foreldrið hafi tekið einhliða ákvörðun eða að um framhjáhald og svik hafi verið að ræða. Reynið að segja frá í einföldu máli af hverju skilnaðurinn kemur til að og þið farið í gegnum skilnaðarferlið saman og af ábyrgð (þó skilnaðurinn komi mögulega að frumkvæði annars)
Þegar börn spyrja mikið aftur og aftur út í ástæður skilnaðar eða vilja fá betri svör er gott að endurtaka fyrri frásögn en halda sig við hana að mestu leyti. Með tímanum og þegar lengra er liðið frá er hægt að segja betur frá - og alltaf aldurstengt viðeigandi en ástæður skilnaðar er ekki eitthvað sem börn þurfa að hafa alveg á hreinu.
Stundum þegar börn spyrja mikið er gott að grípa í endurtekna frasa eða setningar hjálpa manni að halda sér við efnið og svo hugleiða af hverju barnið er að spyrja svona og leiða þá umræðuefnið frekar þangað, stundum er óskhyggja um að foreldrar taki aftur saman og oft eru þau að velta því fyrir sér hvort þau geti gert eitthvað á annan hátt eða betur.
Munum þó að hafa í huga að skilnaður er sorgarferli fyrir alla og birtist á ólíkan hátt hjá ólíkum einstaklingum. Mikilvægst er að vera skýr, með leiðandi fordæmi og muna að ábyrgðin liggur hjá þeim fullorðnu.
Comments