Þessi orð Inu May Gaskin sitja enn með mér varðandi barnsfæðingar.
Let your monkey do it vísar auðvitað í að láta mannapann í okkur sjá um að fæða barnið eða með öðrum orðum að slökkva á hinum hugsandi heila og láta frumheilann, prímatíva hlutann af okkur um verkið. Þannig er lögð áhersla á að ofurárvökli stressaði meðvitaði hlutinn af okkur fái hvíld um stund og fari aftur í tímann og inn á við.
Frjáls og örlítið villt.
Þessi prímatíva samlíking minnir mann á að leita inn á við að styrknum sínum, efast ekki um getu sína til að fæða barn og gera það sem er best og þægilegast í fæðingu. Standa ef kona vill, sitja ein í friði ef hún vill, gefa frá sér hljóð, prumpa og hafa litlar áhyggjur af umhverfinu.
Sumir eiga erfitt með þessa samlíkingu, tengja lítið við að vera dýr og eru jafnvel vanir því að slíkar dýrasamlíkingar séu notaðar til að lítillækka eða hafa hemil á hegðun ,,láttu ekki eins og api”. Geta dýra til að koma afkvæmum í heiminn er nokkuð eftirsóknarverð og því í raun heiður að geta ræktað þann hluta hjá sér fyrir fæðingu.
Það er æfing eins og svo margt annað að rækta í sér apann fyrir fæðingu og hluti af slíkum undirbúningi er að setja athygli og áherslu á að upplifa og finna fyrir þeim líkama sem maður er í. Taka skref í að vera vinur líkama síns ef kona er það ekki nú þegar. Treysta oftar á innsæið og æfa sig í því. Gefa frá sér hljóð óundirbúið, syngja, hljóða og óma. Venjast röddinni sinni í einveru.
Reyndar er nokkuð merkilegt hve margar konur tala um eftir fæðingu að hafa séð fyrir sér að eitthvað dýr hafi gefið þeim styrk í fæðingunni. Annað hvort sem verndari konunnar eða að kona hafi upplifað að hún væri slíkt dýr og það hafi gefið henni styrk.
Comentarios