top of page

Erfið fæðingarreynsla

Updated: Aug 27, 2020


Stundum er fæðingarreynslan ótrúlega sár, svo sár að hún nístir inn að beini.

Barnið er fætt en móðirin og foreldrarnir brotnir. Orðlausir, í áfalli og uppgefnir. Fæðingin fór á allt annan hátt en lagt var upp með.

Hvað veldur er ekki alveg vitað, stundum er það augljóst út á við, inngrip eftir inngrip en stundum er minningin svört þó mæðraskýrslan sé fallega orðuð.

Eftir situr reiði, vonbrigði, eftirsjá, skömm og glataðir draumar sem lítið pláss er fyrir.


Fæðingarferlið var allt öðruvísi en lagt var upp með. Yfirleitt erfiðara, lengra og inngripameira. Löngunin til að eignast annað barn er kannski til staðar en óttinn stýrir manni og kona getur ekki hugsað sér að ganga í gegnum sama ferli aftur.


Brot úr minningarreynslunni sækja á mann ítrekað og stundum getur fólk ekki kallað minningarreynsluna sína fram. Minningin lituð af framkomu þar sem erfitt var að átta sig á aðstæðum og enga stjórn að hafa á hlutunum.

Stjórnleysið er oft það sem situr sárast eftir og framkoma starfsfólks gleymist seint.

Oft eftir erfiða fæðingu hringsóla systurnar ef og hefði í huganum og telja manni trú um að maður hefði getað gert betur. Kona gerði ekki nóg, hún hefði getað gert aðeins meir ,,ef ég hefði…“.


Stundum er eitthvað til í þessu, kannski hefði mátt leggja áherslu á meiri undirbúning, undirbúning fyrir það að takast á við það óvænta, að vera tilbúin fyrir líðandi stund og taka því sem til manns kemur. Þó má ekki gleyma að það er ekki hægt að undirbúa allt, sem betur fer heldur maður áfram að undrast út lífið. Allur heimsins undirbúningur gefur okkur ekki stjórn og stundum hefði ekkert getað breytt neinu og trúin á að undirbúningur hefði breytt útkomunni setur oft óheyrilega sektarkennd og ofurábyrgð á hendur nýrrar móður.

Ef og hefði má yfirleitt liggja.


Sannleikurinn er sá að oft hefði útkoman verið nákvæmlega sú sama. Mjóa þrautseiga röddin í höfðinu ætti í reynd að hvísla ,,þú gerðir allt sem þú gast, þú ert nóg“.


,,Það eina sem skiptir máli er að barnið er heilbrigt“ eru huggunarorð sem veita sjaldnast nokkra huggun. Það er ekki hægt að fullþakka fyrir þá gjöf að fá barn í hendurnar og heilbrigt í ofan á lag en huggunarorðin gera lítið úr þeim sem sitja með sárt ennið, minnka rýmið sem er til að deila upplifuninni og sækja kraft í að heila reynsluna. Líklega eru fáar setningar sem þagga jafnfljótt niður í nýbökuðum foreldrum sem hafa upplifað erfiða fæðingu.


Móðirin skiptir miklu máli, líðan hennar skiptir gríðarlegu máli. Fyrir hana sjálfa, fyrir barnið og fyrir nýju fjölskylduna. Áherslan fer á að velta sér ekki upp úr því sem er liðið, horfa fram á við og njóta barnsins en það er erfitt að njóta barns þegar hugurinn hringsólar í endurminningum sárra minninga. Áherslan er á að loka og leggja minninguna að baki og láta hana ekki á sig fá. Herða sig aðeins upp.


Sem gengur oftast ekki því eina leiðin í gegnum sára reynslu er einmitt að fara í gegnum hana. Ganga alla leiðina. Það er ekki hægt að fara styttri leið, þegar við lokum á þungu tilfinningarnar lokum við gleðinni líka. Yfirleitt getum við linað þjáninguna með því að vera að fullu í líðandi stundu. Núið sem hjálpar okkur svo mikið.


Mildi er besta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum, mildi gagnvart því að hafa upplifað eitthvað svo sárt sem manni finnst að eigi að vera gleðilegt. Mildi gagnvart því hve berskjölduð við erum, mildi gegn dómhörkunni okkar og mildi við skömminni sem við upplifum og þrífst bara í þögninni. Mildi er að upplifa og finna sársaukann, mildi er að segja já þetta var erfitt, mildi er að segja þetta tekur tíma að jafna sig.


Tíminn er vinur okkur. Tíminn læknar ekki öll sár en skapar fjarlægð og gefur okkur rými.

Núið í tímanum gefur okkur rými til að vera og tíminn gefur gefið okkur fjarlægð til að endurspegla, skoða og sættast.


Óeigingjarnasta gjöfin sem við getum þegið er hlustun úr innsta hring, flest eigum við einhvern í innsta hring sem vill hlusta, vera til staðar og skapa rými, einhvern sem þolir að heyra hvernig okkur líður.


Að þiggja hjálparhönd frá utanaðkomandi fagfólki þegar á þarf að halda er styrkur

137 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page