Fæðing barns er stórvirki, það tekur á mörgum þáttum að koma barni í heiminn. Líkamlega er það krefjandi sem og andlega. Það er eitt og annað sem kona getur gert til að hafa áhrif á fæðinguna sína sem hjálpar til við að takast á við fæðinguna.
Öndun er svo ótrúlega einfalt en magnað hjálpartæki í fæðingu, ég hef séð það aftur og aftur hvað hvernig öndun dregur konur í annað meðvitundarástand. Hormónar, samdrættir og annað hafa auðvitað sín áhrif en þetta að draga inn andann, anda rólegar út og endurtaka er svolítið eins og akkeri. Kemur konum aðeins lengra inn í fæðinguna og stundum alveg í gegnum hana. Það er eins og öndunin, yfirveguð, einbeitt og æfð minnki sársaukaupplifun, dragi úr meðvitund um umhverfið og geri konum betur kleift að fara inn í eigin líkama og ganga inn í tímaleysið sem fylgir fæðingu. Einn samdráttur enn, einn enn andardráttur. Það eru svo ótal mörg önnur tilefni þar sem andardrátturinn nýtist áfram, þó móður og barn séu ekki lengur eitt. Það á oftast eftir að sauma og stundum taka blóðsýni, það eru sárar geirvörtu og aumur botn sem fylgja manni inn í móðurhlutverkið. Öndun þessi endurtekning að draga inn andann og anda rólega út, gagnast manni vissulega best þegar maður hefur æft það á einhvern hátt áður, meðvitað eða ómeðvitað. Svo sem að fara í jóga og gera hugleiðsluæfingar. Þá gagnast að sama skapi að muna að það þarf ekki nema þrjá rólega andardrætti til að róa líkamann, sem ósjálfrátt róar hugann. Þessa þrjá andardrætti er aðgengilegt að æfa heima hjá sér, hvenær sem maður man eftir, maður getur gert það í laumi svo að segja hvenær sem er en það er líka hægt að setja miða á ísskápinn eða stilla símann sinn á áminningu. Ég bendi fólki stundum á á námskeiðinum mínum að það geti verið gott að æfa saman andardráttinn í augnablik fyrir svefninn, haldast jafnvel í hendur þegar maður er lagstur á koddann og taka nokkra góða andardrætti og leyfa sér að finna, án þess að dæma, hvernig manni líður í líkamanum.
Mín reynsla í gegnum þær fæðingar sem ég hef verið viðstödd er líka sú að öndunin kemur manni alltaf til góða en fæstar konur geta stýrt önduninni út alla fæðinguna, þar til barnið er komið í heiminn. Það er eins og þegar komið er á síðustu metrana taki líkamskerfið alveg við, stýri líkamanum og stýri önduninni. Ósjálfráða kerfið tekur yfir og þá getur reynt á að láta hugann fylgja með og leyfa líkamanum að stýra. Sumar konur hafa talað um að það hafi verið erfitt að hafa stýrt önduninni lengi og vel og finna svo á einhverjum tímapunkti að öndunin er ekki eins og þær vilja stýra honum, þá er að taka eftir því og samþykkja það. Minna sig á að maður er kominn það langt í fæðingunni að öndunin er ósjálfráð, þá er yfirleitt stutt eftir.
Hreyfing í fæðingu getur líka verið virkilega gagnleg, það að hreyfa sig reglulega meðan á fæðingunni stendur styttir fæðinguna og gerir hana mun bærilegri. Það er misjafnt hvernig hreyfiþörfin kemur til kvenna og meðan sumar eru mjög afslappaðar og finna lítinn frið með að hreyfa sig eru aðrar sem verða að vera á hreyfingu.
Í upphafi getur verið gott að ganga aðeins um, það er hægt að fara í gönguferð í byrjun fæðingarinnar og þegar líða fer á getur verið gott að ganga um húsið eða herbergið. Sumum finnst gott að rúlla sér á bolta eða hossa sér á milli samdrátta, getur linað verkina og hjálpað litla barninu að snúa sér og koma sér í góða stöðu. Eiginlega er öll hreyfing sem manni dettur í hug til hins góða.
Stundum er nóg að standa og hrista mjaðmirnar duglega, sveifla mjöðmunum í rólega í stóra hringi. Ef maður liggur út af er gagnlegt að muna að skipta um hlið á hálftíma fresti og jafnvel snúa sér í hring, hægri hlið, bak, vinstri hlið, fjórir fætur.
Comments