top of page

Töfraformúlan í riflildi

Öll þráum við að fá töfralausn þegar við rífumst við maka okkar, það er eðlilegt. Það tekur gríðarlega á samband að vera ósáttur til lengdar og pör eru fljót að finna að þau eru oft meira eða minna í sama riflildinu, ef ekki að þrátta um það sama þá er kunnuglegt stef í því hvernig þau nálgast umræðuefnið.

Það er eðlilegt að vera ósáttur, rífast og deila en það sýnir sig alveg að því ver sem gengur í sambandinu því lengur vara deilurnar og koma oftar upp.


Ég er stundum beðin um töfraformúlu fyrir fólk að taka með sér heim úr paraviðtölum og í pararáðgjöf, þannig að það geti masterað ósættin og eða enn betra hætt þeim alveg til fullnustu og því miður þá er sú töfraformúla ekki til, amk ekki sú sem endist.

Hinsvegar er alveg raunsætt að breyta ágreiningsstílnum, venja sig á að nálgast málin á annan hátt og samfara því byggja traustari stoðir undir sambandið svo ágreiningurinn eða riflildin verði auðveldari og sanngjarnari, standi styttra yfir og risti ekki eins djúpt.



Fyrsta skrefið er að tjá sig skýrt, segja það sem maður er að hugsa um og gera það eins rólega og maður treystir sér hreinlega í. Hér eru ég boðin mikilvæg, benda á það sem maður vill og þarf (eða vill ekki) en ekki benda á hvað hinn er að gera rangt. Þá er mikilvægt að halda sér við efnið, fara ekki vítt og breitt í samtalinu því þá er eins og maður sé að hoppa á steinum, snertir marga fleti en leysir lítið. Halda sér innan rammans, við ákveðið umræðuefni.


Það er ótrúlega mikilvægt að staldra við og setja sig í spor makans, reyna að sjá málin frá báðum hliðum og taka til greina það sem maki leggur til út frá sínu sjónarhorni og hlusta á það af fullum þunga. Staldra við og taka á móti því sem makinn hefur að segja og leggja sig fram um að sjá hans sjónarhorn. Með því að horfa á sjónarhorn makans, til jafns við sitt eigið nær maður samkennd og getur reynt að sjá einhverja málamiðlun sem báðir aðilar gætu verið sáttir með.




Hlustun í ágreiningi er líklega það mikilvægasta en á sama tíma það allra erfiðasta, þegar maður er ósáttur vill maður oft bara koma sínu að, segja sína skoðun, láta makann átta sig á málunum og sjá að maður hefur rétt fyrir sér. Flestir vita þó að það er ekki fyrr en við upplifum að hlustað hafi verið á okkur að við getum sett okkur í þær stellingar að taka tillit til annarra og skoða þeirra sjónarhorn.

Hlusta til að skilja

Hlusta til að sjá málið frá öllum hliðum

Hlusta meira en tala


Það er auðvelt að detta af leið,detta í tuð og nuð og draga fram eitt og annað sem maður hefur verið ósáttur við í gegnum tíðina, það er nokkuð algengt að maður dragi sig í hlé, verði tilfinningalega fjarlæg/-ur og geti ekki sett sig í samtalið af athygli. Þetta eru algengar gildrur sem og að setja sig á háan hest, finnast maður hafa meira til málsins að leggja og vera makanum æðri í ágreiningnum. Ekkert af þessu er gagnlegt. Né er gagnlegt að hanga í ágreiningnum, tala um það lengi, ítrekað og sleppa ekki tökunum á efninu þó maður sjái að maður kemst hvorki lönd né strönd og makinn ekki heldur.


Stór liður í því að takast á við ágreining er að vera meðvitaður um eigin ábyrgð og hvaða þátt maður á í ágreiningsefninu eða deilunni. Það er hluti af því að sjá hlutina frá báðum hliðum. Manns eigin ábyrgð er alltaf mikil og spilar ákveðna rullu. Hér er ekki verið að tala um að maður eigi að taka allt á sig til að leysa deilur því það er ákveðið yfirlæti, heldur að vera meðvitaður um sinn þátt. Að sama skapi og maður er meðvitaður um eigin þátt má maður ekki taka ábyrgðina af öðrum sem þátt eiga í máli, þeir verða að bera ábyrgð á sínu.


Loka hluti þess að fara í gegnum ágreining er að miðla málum, finna sátt og byggja upp eitthvað sem báðir aðilar geta sætt sig við að fullu.



Recent Posts

See All

Hvernig gengur þegar vel gengur?

Það er ótrúlega öflugt að stoppa á góðum tímum og spyrja sig, hvað gerum við þegar vel gengur? Því þegar allt er í blóma er oft ákveðið...

bottom of page