,,Heilt yfir þegar fólk á í ástarsambandi er betra að deila neikvæðum og erfiðum tilfinningum, að því gefnu að það fari ekki allt úr böndunum, en að vera tilfinningalega fjarverandi. Skortur á viðbrögðum setur panik í frumtengslakerfið okkar."
Eitthvað á þessa leið má þýða setningu úr bók Sue Johnson, Hold me tight. Mér finnst hún segja svo margt. Það er ótrúlega erfitt að vera í sambandi og samskiptum við manneskju sem hefur lokað á mann tilfinningalega og er ekki til staðar og flestum finnst betra að heyra kaldan erfiðan sannleikann en að vera úti í kuldanum og fá engin viðbrögð. Það er fátt sem gerir okkur mannfólki meira einmana en tilfinningaleg fjarlægð ástvina okkar og það er svo lítið hægt að breyta eða gera við samskipti þegar ekki er boðið upp á þau.
Hinsvegar er skiljanlegt að við hugsum okkur um þegar við deilum einhverju með maka eða ástvini og oft þegar það hefur verið álag eða mörg samskiptaslys þá er eðlilegt að vilja verja sig og ,,valda ekki meira veseni".
Ég spurði samfélagið á Instagram hvort það tengdi við að hafa eitthvað mikilvægt að segja við maka en hafa haldið aftur af sér og langlangflestir voru á því að hafa ekki tekið upp umræðuefni sem báðir fundu að þurfti að taka á til að setja ekki hlutina úr jafnvægi þó það vissi að til lengri tíma væri það verri niðurstaða.
Ef við horfum til þess með mildi af hverju fólk heldur aftur af sér er það yfirleitt því það er að reyna að gera aðstæður betri, hlífa sér eða maka sínum og forðast það að særa, meiða eða gera hlutina verri. Það krefst berskjöldunar og hugrekkis að taka sénsinn á því að það sem maður segir verði ekki tekið úr samhengi og hægt sé að ræða hlutina betur.
Það gefst oft ótrúlega vel að gefa sér stuttan tíma í fara á tilfinningadýptina. Þó það gefist vel er það á sama tíma erfitt. Þegar fólk hefur haldið tilfinningum sínum út af fyrir sig lengi og er hrætt við viðbrögð eða hrætt við að særa er líklegt að streitukerfið sé ræst og flest sem sagt er oftúlkað eða oflesið og þá er gott að hafa stuttan umræðutíma til að geta frekar tekið málin upp aftur seinna.
Comentarios