top of page

Fjármál heimilisins



Peningar og fjármál er oft ásteitingssteinn í samböndum og stundum finnst mér eins og pörum finnist erfiðara að ræða um fjármál og útgjöld heldur en kynlíf.


Flest erum við sammála um að þegar kemur að peningum er betra að vita hvernig staðan er nákvæmlega heldur en að giska og geta í eyðurnar. Það er oft fyrsta og öflugasta skrefið í auknu fjármálalæsi að vita hvað klukkan slær í þeim málum.


En þó fjármál séu tölur og kreditkortayfirlit eru fjármál ótrúlega tilfinningatengd og oft eru pör að burðast með viðhorf og nálgun á fjármál frá því í barnæsku sem þau eru ekki mjög meðvituð um. Sumir hafa t.d. alist upp við það að peningar eru aldrei ræddir innan veggja heimilisins, sama hver fjárhagsstaðan er og svo hinir sem skeggræddu peninga út í eitt. Mörg hafa það viðhorf að það að vera góð og göfug manneskja samrýmist ekki því að vera með góðar tekjur og öfugt sem er ekki mjög þjónandi viðhorf.


Svo þegar fólk er að byrja að skoða fjármálin sín, og það sem helst kemur á borð til mín, samskipti í kringum fjármál er gott að byrja á því að skoða hvar liggja styrkleikar okkar og veikleikar í fjármálum? Flest vita þetta um sig og hvert annað en það er gott að setja orð á og segja upphátt hvar styrkleikarnir okkar eru og eins hvaða veikleikar tengd fjármálum liggja hjá okkur.


Þá er mjög gott að kortleggja viðhorf okkar til peninga og hvaða merkingu við leggjum í peninga. Ólík peningaviðhorf valda oft ósætti og deilum. Sem dæmi má nefna er t.d. kaup á heimilisbúnaði eða bíl. Það getur verið erfitt að ganga milliveginn ef annað vill kaupa dýran bíl á lánum meðan hitt vill kaupa notaðan bíl sem innistæða er fyrir eða endurinnrétta íbúðina reglulega eða ekki.


Það sem er kannski áhugaverðara og mikilvægara að skoða er af hverju vil ég hafa útgjöldin svona eða hinsegin, að kafa undir yfirborðið og skilja hvað eru peningar í mínum huga og hvað endurspegla þeir í höndunum á mér?

Í því samhengi getur verið skemmtilegt og gagnlegt að skrifa niður orð sem okkur dettur í hug þegar kemur að peningum og raða þeim upp eftir forgangsgildi.



Dæmi: Peningar eru: þægindi, völd, ævintýri, stöðutákn, sparnaður, öryggi og svo framvegis og hvor um sig raðar upp eftir mikilvægi og vilja til að forgangsraða. Út frá þessum niðurstöðum er svo gagnlegt að ræða hver munurinn er og hvað er líkt og hvaða áhrif þessi viðhorf okkar hafi á samtöl um peninga og hvar það verður til þess að útaf ber ef of krefjandi er að halda áfram með samtalið.



100 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page