top of page

Dagar með fjölskyldunni heima

Updated: Apr 1, 2020

María í Andvarpinu hringdi í mig um daginn og við tókum spjall um þessa áskorun sem það er að vera mikið heima við núna. María tók svo spjall okkar saman og skrifaði niður punkta sem þær Andvarpsstöllur tóku saman og deildu hér. Ég set svo þessi atriði hér í þessa færslu.


Í mikilli óvæntri heimaveru eins og núna er gott að hafa í huga hvaða væntingar við höfum til þeirra sem eru á heimilinu. Að líta raunsætt á hlutina og heildstætt getur verið sterkasta vopnið okkar. Ef það eru mörg lítil börn á heimilinu er önnur stemning en ef þau eru farin að stálpast. Alltaf má gera ráð fyrir því að systkini rífist. Það er hluti af miklum samskiptum lítilla barna. Það er eðlilegt að það komi dagar þar sem allt gengur mjög vel og aðrir dagar þar sem börnin rífast um allt og ekkert. Börn sem eru að þroska samfélagshegðun sýna þurfa rými til að geta slípast til.


Börn eru næm á líðan foreldra sinna og nauðsynlegt á tímum sem þessum fyrir foreldra að finna tima til að ná að kjarna sig og hlúa að sér. Standa í föstum fótum í brimrótinni.

Slíkur tími og slík umhyggja felur í sér að setja sjálfum sér mörk sem og börnunum sínum. Gefa sér tíma til að sinna sjálfum sér og gefa sér tíma til að sinna börnunum sínum.

Stilla væntingum í hóf, halda virkni og setja mörk.

Það er mikilvægt að hafa fasta punkta í tilverunni, hreyfa sig og leika mikið.


Þessi samfélagshvíld og á stundum sóttkví reynir á. Þetta er skrýtinn tími fyrir okkur fullorðna fólkið sem náum að einhverju leiti að skilja ástandið en að öðru leiti ekki og skilningur barna er enn takmarkaðri. Með því að tala við börn um ástandið eftir aldri og þroska verður ástandið bæirlegra. Eins mikilvægt að samtalið um veiruna er þá er samtalið um eitthvað annað enn mikilvægara. Halda í leikinn því leikur er tjáning barna og það breytist ekki núna.


Þar sem tveir fullorðnir eru á heimili er raunhæft og mikilvægt að fá rými til þess að hafa stund út af fyrir sig, 30 mínútur, eða 60 mínútur. Fara í göngutúr, setja á sig maska, setjast einn einhversstaðar og lesa bók, hringja í vin eða hvað það er sem manni finnst notalegt og endurnærandi að gera. Þetta andrými er svo mikilvægt, því til þess að geta gefið af sér og hugsað um aðra verður maður að hafa náð að hugsa um sig. Setja súrefnisgrímuna á sig eins og við höfum svo oft heyrt.


Sumir hafa talað um að þeim finnist óþægilegt að sjá myndir af öðrum á samfélagsmiðlum því myndirnar senda skilaboð um að það sé alveg æðislegt hjá þeim í þessari samfélagshvíld. Samfélagsmiðlar eru jú til þess ætlaðir að búa til samskipti og kannski alveg eðlilegt að þannig notkun aukist núna. Á samfélagsmiðlum og þegar við hittum fólk höfum við tilhneigingu til að deila góðu stundunum okkar. Ein falleg mynd er auðvitað gott augnablik sem náðist á mynd, ekki endurspeglun á heilu og hálfu dagana hjá fólki en mikilvæg minning fyrir okkur. Fegurðin í strögglinu, það getur verið ströggl að vera heima og margt er breytt en það koma alltaf þessi augnablik, sem eru smá og falleg og í raun það sem dregur okkur áfram.

Það er ekkert að því að hætta að fylgja einhverjum á samfélagsmiðli ef hann triggerar vondar tilfinningar,, snooze for 30 days" ætti að nota óhikað. Svo má líka skammta sér tíma á samfélagsmiðlana frekar þegar maður er upplagður og reyna að nýta þá í samskiptin ekki í hugsunarlítið hraðskroll sem kemur streitunni af stað. Við verðum líka að passa að bera ekki okkar verstu stundir og augnablik við bestu stundir annarra sem þeir deila með samfélaginu.


Efinn læðist oft að okkur, er ég að gera nóg? Er ég að standa mig? Efinn er eðlileg hugsun og fær okkur til að skoða aðstæður og gera góðar ráðstafandi þegar hann nær að vera leiðarvísir. Efinn verður samt oft til þess að við drögum úr getu okkar og tölum niður allt það sem við erum að gera sem er gott og fallegt. Við getum alltaf meira en við höldum og með því að búta dagana niður, búta klukkustundirnar niður í einingar verður allt bærilegra. Horfa á það sem er raunverulega að gerast hér og nú og vinna út frá því. Hvað get ég gert næsta klukkutímann? Hvað er raunhæft að ég og við gerum í dag? Hvaða áhyggjuþætti get ég geymt í bili því það er ekkert sem ég get gert í þeim núna?


Tilfinningar eru smitandi og börn eru næm á líðan foreldra sinna. Til þess að tækla áhyggjur barna verður maður að ná að tækla eigin líðan. Vera kletturinn sem stendur til að róa öldurnar.


Börnin okkar hafa mesta þörf fyrir leik, nánd og það að vera hér og nú. Þau skilja ekki takmarkanir samfélagsins en þau skilja nánd og geta tjáð sig í gegnum samveru. Með því að taka lítil skref og passa að taka frá stund fyrir sjálfan sig er maður betur í stakk búinn til að uppfylla þarfir annarra.


Ég held að við höfum aldrei á'ur haft jafnmikla þörf fyrir sjálfsmildi og nú. Gangi okkur öllum vel.

14 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page