top of page

Er kominn tími á að fara í parameðferð?

Updated: Jun 23, 2020

Streita og leiðindi í parasambandi er gríðarlega krefjandi og erfið til lengdar inni á heimili. Samskiptin inni á heimilinu hafa áhrif á líðan okkar, framkomu og frammistöðu á heimilinu og annarsstaðar. Við vitum líka að neikvæð samskipti innan parasambandsins hafa neikvæð áhrif á börn og okkar nánustu.


Erfið samskipti, riflildi og ósætti særa og meiða. Við vitum það. Tengslin okkar við maka eru þannig að orðin og athafnirnar snerta við okkar viðkvæmustu þráðum. Við vitum líka að fáir endast í að rífast lengi og mikið og því fjarlægist fólk tilfinningalega. Reynir að halda friðinn, lokar sig af tilfinningalega og gefur ekkert af sér. Samskiptin eru minni, stífari, fjarlægari og ópersónulegri.


Nándin minnkar, leiði og óöryggi eykst.


Margir upplifa sig algerlega strand og ná ekki að koma sér upp úr farinu. Bátur á strandaður í fjöru og það flæðir aldrei að.


Flestir finna vel fyrir þessum strandstað, stundum finna báðir aðilar fyrir því á sama tíma. Stundum er annar fyrri til að kveikja en hinn.


Orðið á götunni segir að pör komi að meðaltali sex árum eftir að þau taki eftir vandkvæðum í hjónabandinu. Sex ár eru tæplega 2200 dagar, sem er langur tími til að upplifa stífleika og erfiðleika í sínum nánustu tengslum. Fólk sem hefur beðið í sex ár finnur að báturinn er grafinn í sandinn. Sem segir líka ákveðna sögu um úthald og þrautsegju- sem er fegurðin í strögglinu.


Það getur verið erfitt að segja hvenær er góður tími til að panta hjá pararáðgjafa, en hér eru nokkur atriði sem líklegt er að hægt sé að fá aðstoð með í parameðferð:

Þó verður að segjast líklegt að það sé kominn tími á að tala við þriðja aðila þegar að:


  • riflildin særa og versna með hverju riflildinu

  • þegar annað eða bæði upplifa tilfinningalega fjarlægð og upplifa sig einmana í sambandi

  • traustið hefur minnkað og skuldbindingin í sambandinu fer dalandi. Parið er hætt að treysta á hvort annað og leita eftir stuðningi.

  • tengslavandinn liggur meðal annars í ótta við að vera yfirgefinn eða lágu sjálfsmati sem litar samskiptin. Makinn er gríðarlega háður hinum. Stýrandi út frá kvíða. Óhóflegt sjálfstæði.

  • skortur á stuðningi, erfiðleikar við að tjá líðan.

  • erfiðleikar með fjölskyldur, vinnu og aðrir streituvaldandi þættir.

  • ósamstíga í uppeldi og nálgun í foreldrahlutverki

  • nándarerfiðleikar, erfitt að vera náinn í hvunndeginum

  • skortur á nánd í gegnum kynlíf, leiði.

  • tilfinningaójafnvægi sem má rekja til uppvaxtarára eða áfalla

  • ójafnræði í verkaskiptingu

  • vanlíðan og kvíði annars/ beggja hefur áhrif á sambandið

  • annar aðili / báðir hafa glatað sjálfstæði sínu og finnst sem þeir þekki ekki sjálfan sig lengur


Vandinn getur verið ólíkur og þarf að nálgast á ólíkan máta og þegar vandi hefur verið til staðar í ákveðinn tíma má leiða líkur að því að hann leysist ekki að sjálfu sér með hefðbundum bjargráðum pars.



Það getur verið erfið tilhugsun að leita eftir aðstoð og margir ströggla við eigin hugarmyndir sem stoppa mann af. Sumum finnst erfitt að hugsa til þess að ná ekki að vinna á eigin vanda án utanaðkomandi hjálpar, líður eins og betra sé að takast á við hlutina heima fyrir og sumir finna fyrir skömm við tilhugsunina og upplifa jafnvel að það sé eitthvað að þeim sé leitað hjálpar. Það getur tekið á að stíga út úr þeim ramma.

Aðrir vilja gera lítið úr vandanum, forðast að horfast í augu við það sem er að gerast og forðast öll átök. Loka sig meira og meira af og jafnvel leita eftir tilfinningastuðningi annað.

Stundum festist maður í að telja vandann liggja hjá makanum en ekki manni sjálfum. Því sé í raun gagnslaust að fara saman því vandinn liggi hjá hinum aðilanum.

Stundum býr maður yfir þeirri hugmynd að góð sambönd þar sem ást er til staðar þurfi ekki aðstoð eða vinnu.


Þetta eru bara dæmi um ,,stoppara" hringlandi hugsanir sem koma aftur og aftur upp í hugann og halda manni frá því að leita sér aðstoðar en halda ekki góðum rökum.

Sjaldan veldur einn þá tveir deila, oft er samskiptavandi innan parasambandsins hegðunarmynstur en ekki djúpstæður galli. Öll sambönd fara í gegnum breytingarskeið og þroskatímabil og flest sambönd þurfa aðhald og vinnu svo einmitt þau nái að þroskast og vaxa. Með því að horfast í augu við vandann, átta sig á þörfum sínum, makans og sambandins fæst það rými. Ekkert til að skammast sín fyrir eða halda halda aftur af sér með.



Þröskuldur fólks í að koma í parameðferð er misjafn. Fyrir einhverja eru þetta nokkuð léttvæg skref, fyrir aðra mjög þung. Þegar tekist er á við vanda og flókin mál kemur það til með að reyna á. Alltaf. Það verður erfitt fyrir báða aðila að tala um mál sem eru flókin með djúpar tilfinningar. Að þora að segja það sem þarf, finna sársaukann og vona að það finnist lausn.


Sem er oftar tilfellið. Parameðferð skilar oftar árangri en hitt. Þegar par gefur sig í að kynnst sér, makanum og sambandinu sínu upp á nýtt getur það skilað sér í betra betra og nánara sambandi- ekki alltaf en oft. Parameðferð ætti þó alltaf að skila parinu betri og dýpri skilningi á sjálfum sér í samhengi við sig í parasambandinu sem ætti að vera eftirsóknarvert.


Fólk í parameðferð ætti að leita eftir meðferðaraðila sem passar þeirra hugmyndafræði og túlkun, það er nauðsynlegt að finna til trausts gagnvart meðferðaraðilanum sínum og finna að hann geti leitt samtalið áfram þangað sem þið viljið taka það.


Heilt yfir ætti fólk í parameðferð að geta búist við því að fá betri skilning á sér, makanum og parasambandinu. Dýpri skilning á eigin tengslakerfi og viðbrögðum streitukerfisins og hvaða þættir móta og byggja upp parasamband. Oft fær fólk verkfæri til að byrja upp á nýtt í samskiptum, lærir að tjá sig með öðrum hætti, vanda sig í erfiðum samtölum og hlusta á nýjan hátt.


Tilraunarinnar virði - eða hvað?



708 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page