top of page

Líkamsupplifun og kynlíf

Fyrir mörg pör er hluti ástæðu þess að pör ströggla saman í kynlífi er að annar eða báðir eru ósáttir við eigin líkama. Þeim finnst þeir ekki geta notið sín saman fyrr en að eitthvað við líkama þeirra hafi breyst t.d. betra líkamlegt form komið og búin að léttast ákveðið mikið. Stundum er þetta óöryggi sprottið upp af óánægju með ákveðna líkamshluta og útlit þeirra, m.a. óöryggi með kynfæri.


Þessi líkams - ofvitund ef svo má að orði komast verður líka oft til þess að kynlífið er stirrt, vélrænt og á stundum það sem mörgum finnst minna spennandi. Undir sæng, með ljósin slökkt og lítil tilbreyting. Stundum er mikil viðkvæmni fyrir því að maki sjái eða horfi á ákveðin svæði líkamans. Það er ótrúleg áskorun að upplifa sig sexý og finna fyrir kynlöngun þegar manni líður ekki vel með sig og líkama sinn.


Það þarf ákveðna af-vitund til að geta sleppt af sér beislinu því kynlíf er oft vandræðalegt, berskjaldandi og klaufalegt og svo langt frá bíómyndafullkomnun.


Líkamsóöryggi er gríðarlega algengt, höldum því til haga og aðeins algengara hjá konum. Kannski kemur á óvart þegar maður segir aðeins algengara hjá konum því það er algengt hjá öðrum kynjum og karlmönnum en því hefur ekki verið gefinn eins mikill gaumur.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að við búum í samfélagi sem elur á pressu og kröfum á fólk, meir og meir á alla en áður og einhvern veginn er eins og þessi pressa sé frekar að aukast.


Líkamsóöryggi er eitt af níu algengum þemum sem konur hafa lýst í rannsóknum þegar þær hafa verið spurðar út í hvað kveikir í þeim og hvað stoppar þær af.


Líkamsóöryggi sem stoppari í frumkvæði að kynlífi eða til að njóta er liður í því sem Emily Nagoski kallar bremsur á kynhvötinni. Bremsa er prógram sem við höfum líklega búið til einhvern tímann á lífsleiðinni, sem heldur aftur af okkur og fær okkur til að bæla niður langanir til að njóta og gerir okkur vör um okkur. Bremsur sem stundum eru svo sterkar að fólk veltir því fyrir sér hvort það hafi nokkra kynlöngun yfir höfuð.


Mögulega eru þessar bremsur komnar til að vera, en það er hægt að þekkja þær, vita hvað virkjar þær og hvernig er hægt að tækla þær. Það er þess virði að gefa sér tíma, einn eða með maka og skoða:

- hverjir eru stoppararnir,hvaðan koma þeir?

- hvað langar mig að gera til að tækla þá?

- hvernig og hvernig getur makinn minn stutt mig í þeirri vegferð?


Það er áhugavert að pæla aðeins í því, hvernig væru hlutirnir ef við hefðum enga skoðun á líkama okkar. Sumum finnst þetta jafnvel galin hugmynd og eiga erfitt með að sjá lengra en að upplifa streitu og gagnrýni gagnvart sér og líkama sínum en þetta er nokkuð öflug pæling.


Hvernig væru hlutirnir ef þú hefðir enga skoðun á líkama þínum?

Hvernig væri málunum háttað ef þú upplifðir engar neikvæðar tilfinningar gagnvart líkama þínum?

Hvernig væri málunum háttað ef þú finndir ekki til streitu gagnvart því hvernig þú ert eða líkami þinn?


Hverju myndi það breyta?402 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page