top of page

Listin að hlusta

Updated: Apr 1, 2020

Fyrsta skrefið í átt að bættum samskiptum í parasambandinu er oft að taka ákvörðun um að vanda sig betur í samskiptum. Þegar stirrt hefur verið á milli manns og maka í einhvern tíma langar mann oft síst að hlusta á viðkomandi heldur frekar leiðbeina, gagnrýna og jafnvel stýra. Manni langar að laga hlutina með skipunum og festu. Hratt og örugglega því maður er úrvinda og oft einmana í sambandinu. Þó slík nálgun sé skiljanleg í strembnum aðstæðum er hún sjaldan leiðin að bættum samskiptum eða betra parasambandi.

Við þurfum og viljum koma skilaboðum áleiðis, við viljum líka að hlustað sé á okkur og tekið tillit til þess sem við höfum til málanna að leggja. Við viljum upplifa að maki okkar taki eftir okkur, að við finnum að við skiptum máli. Dr. Sue Johnson, hjónabandsráðgjafi, segir að stóra óorðaða spurningin í parasambandinu sé ,,sérðu mig, skipti ég þig máli?“ og líka ,,Ertu að hlusta á mig?“.

,,Flestir hlusta ekki til að skilja, flestir hlusta til að fá orðið aftur“ Hlustun krefst þess oft að við leggjum okkur fram, hlustum á orðin sem koma, skoðum tjáninguna sem fylgir og við horfum á manneskjuna. Þegar fólk hlustar til að skilja spyr það nánar út í það sem verið er að tala um. Hlustun felur í sér að bíða, melta og trufla ekki frásögn. Við þurfum að stilla okkur inn á að hlusta. Það getur verið krefjandi til að byrja með en er fljótt að komast upp í góðan vana og þegar fólk fer að leggja sig fram um að hlusta til að skilja í parasambandinu, breytast hlutirnir oft hratt til hins betra.

Fyrst skrefið í bættu parasambandi er því oft að leggja við hlustir, vanda sig við að grípa ekki fram í og hlusta á og heyra það sem makinn er í alvörunni að reyna að segja manni. Með því að leggja okkur fram við að hlusta sýnum við vilja til að skilja og virða maka okkar og ná áttum á því sem er sagt. Undir orðunum og frásögninni liggur oft beiðni um tengingu og traust. Því getur verið gagnlegt að velta því fyrir sér hvað maki manns sé raunverulega að biðja mann um í samtalinu, hvaða þörf hann óski eftir að fá uppfyllta.

Enginn segir þetta auðvelt, þvert á móti, það tekur tíma að venja sig á að hlusta til að skilja, hlusta með opnum huga og reyna að sjá eitthvað nýtt við það sem makinn er að segja manni. Það krefst meðvitundar að bregðast ekki við eins og venjulega heldur spegla frásögnina eða spyrja nánar til að skilja hvað hann er að segja. Það getur hinsvegar verið afskaplega fljótt að skilja sér í innilegra og nánara sambandi.

62 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page