top of page

Sættir eftir riflildiAð ná aftur saman eftir ósætti, þrætur eða riflildi er eitt af því sem mikið er spurt um í pararáðgjöf. Hvernig getum við leyst þann ágreining sem kemur upp? Pör finna stundum áþreifanlega fyrir því að vera föst í smákítum eða erfiðum samskiptum og ná ekki að leysa málið og ná sáttum.

Það að leysa úr ágreiningi, skilja hvað fór úrskeiðis og sættast er eitt það mikilvægasta í parasambandinu og er oft tækifæri til að öðlast dýpri skilning á sér og maka sínum og í kjölfarið auka nánd og tengingu á milli parsins. Það er ekki endilega það að upp komi ágreiningur eða ósætti, úrvinnslan og eftirmálinn er mikilvægari. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um í parasamböndum sem glíma ekki við ofbeldi eða virka fíkn, en þar eru ójafnvægi í parasambandinu.


Fjölmargir pararáðgjafar hafa í raun séð mynstur, greint það og búið til uppskrift að því að leysa ágreining. Gottman- hjónin eru með þessa formúlu sem þau benda pörum á:


  1. Byrja samtalið rólega

  2. Taka inn og hlusta á það sem makinn er að segja

  3. leysa þrætuefnið jafnóðum

  4. Minnka streitu og minnka ágreininginn

  5. Róa sig og makann

  6. Miðla málum og finna lausn

Stundum vonumst við til þess að þegar ágreiningi er lokið að málinu sé líka lokað, en því miður er það ekki þannig. Það verður að ganga í málið og finna lausn. Með því að klára málin, byggjum við upp betri leið til að takast á við næsta vanda og aukum dýpt í sambandinu en þegar vandinn er skilinn eftir eru særindi, vonbrigði og pirringur undirliggjandi sem býður eftir að finna farveg og oft þarf ekki mikið til að triggera það inn í næsta ágreining.

Eitt það mikilvægasta sem pör gera er að byggja upp heilbrigðan samskiptamála til að leysa ágreining vel.


Fyrsta skrefið er að átta sig á því hvað gerðist, tala um hvað gerðist með það fyrir augum að skilja hvað fór úrskeiðis, hvernig manni leið á meðan og hvað hefði getað komið í veg fyrir að svo fór sem fór. Með því að setja orkuna í að skoða atburðarrásina, tilfinningarnar sem vöknuðu í kjölfarið og viðbrögðin upp frá því og hvað það var sem hefði getað farið á annan hátt, nær maður að skoða ferlið og samskiptin og leysa það en situr ekki fastur á yfirborðinu í þú sagðir, ég sagði. Það er eðlilegt að við upplifum hlutina ólíkt og það er enginn einn stór sannleikur þegar fólk er ósammála. Sjaldnast hefur annar alveg rétt fyrir sér og hinn rangt.

Markmiðið ætti að vera að skilja hvað gerðist og finna leiðir til að takast betur á við aðstæður.


Gott er að byrja á að segja hvað hvað maður var að upplifa:


Mér fannst eins og það væri ekki hlustað á mig, mér sárnaði, ég var reið/-ur, leið/-ur. Ég upplifði að ég væri ein/n, misskilinn, dæmdur.


Mér leið eins og ég væri....


Ég var hrædd/-ur, einmana, full/-ur af skömm, niðurlægð/-ur.


Tilfinningarnar báru mig ofurliði.


Þá er að ræða og skoða sjónarhorn beggja:

Skiptist á að ræða málið út frá ykkar sjónarhorni, hlustið og reynið að taka inn það sem hinn segir. Einblínið á upplifunina, tilfinningarnar og þörfina sem er þarna undir. Reynið eftir bestu getu að skilja, taka undir og sjá sjónarhorn makans. Spurðu betur út í ef þú ert ekki viss.


Hvað áttu við?

Getur þú sagt mér betur frá X

Ég get séð hvernig þú tókst þessu

Ertu að segja að í þessum aðstæðum....Svo er að taka ábyrgð á sínum hluta riflildisins.


Að horfast í augu við sitt framlag til ágreiningsins, taka ábyrgð og átta sig á hvað varð til þess að hlutirnir fóru eins og þeir fóru:


Ég er búin/-n að vera undir miklu álagi

Ég tók þessu frekar illa og oflas í aðstæður

Ég sé hvernig ég varð stra gagnrýnin/-n

Ég hef ekki náð að einbeita mér undanfarið


og gott ef hægt er að leggja til lausn:


Ég þarf meiri hvíld, meiri skilning, meiri tíma ein/-n

Ég mun passa að gera X í framtíðinni.


Að lokum er gott að ræða hvernig hlutirnir gætu verið í framtíðinni:


Ég held að þegar þetta kemur fyrir aftur ætla ég að passa að hlusta

Næst í svipuðum aðstæðum er gott ef við náum að róa okkur niður áður en við tökum ákvörðun


Ágreiningur í samböndum er yfirleitt ekki aðalmálið og við getum ekki forðast mistök í samskiptum með öllu. Hvernig pör takast á við ágreininginn, leysa hann og leggja upp í næstu samskipti skiptir meira máli. Í öllum nánum samböndum er viðgerðin og úrvinnslan það mikilvægasta því það gerir okkur nánari, gefur okkur betri skilning á hvort öðru og okkur sjálfum. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að uppúr sjóði og ágreiningur og fjarlægð yfirtaki sambandið.

Þegar lagt er í að gera við það sem miður fer snemma er líklegra að niðurstaðan verði jákvæð og málið leysist.68 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page