top of page
Writer's pictureSoffía Bæringsdóttir

Skipulagt kynlíf

Updated: Aug 17, 2022

Um daginn kom upp spurning hvort það væri góð hugmynd fyrir pör að skipuleggja kynlífið hjá sér, sem þýðir í raun bara að taka frá dag eða tíma til að gera ráð fyrir kynlífi og fyrir mörg pör er þetta ráð góð hugmynd og gagnleg án þess að það leiði til þess að kynlífið verði leiðinlegt eða óspennandi.


Þegar margir hugsa um skipulagða stund fyrir kynlíf sjá þeir fyrir sér hálf dapurt fólk, klæða sig úr fötunum hvort í sínu horninu og klifra svo upp í rúm undir sæng og gamanið endist í örfáar sekúndur án mikillar gleði. Þannig á skipulagt kynlíf ekki að vera og með smá undirbúningi finna mörg pör að með því að taka frá tíma skapast spenna og eftirvænting sem annars myndi ekki gerast.


Ég myndi halda að þetta henti helst pörum sem hafa ágætisáhuga enn á kynlífi en finna ekki tímann, hafa oft ekki agalega löngun fyrirfram eða í daglega lífinu en eru samt á ágætis stað í sambandinu.


Hversu oft á að taka frá tíma til að stunda kynlíf? Það fer algerlega eftir því hvað heillar ykkur og það er gott að hafa í huga að tíðni er ekki sama sem gæði og þó að skipulagt kynlíf sé að borðunum segir það ekki að það sé ekki (ef allir hafa áhuga) ráðrúm fyrir meira kynlíf sem er ekki skipulagða tímanum. Líklega er gott að hafa í huga eitthvað meðaltal af kynlífsiðkun hjá fólki þegar það ákveður að skipuleggja kynlíf, sem er stórt róf en 1x í mánuði, 2x í mánuði, 1x í viku, 2x í viku og meira og minna og allt þar á milli.


Svo hverjir eru kostirnir við að hafa skipulagðan tíma fyrir kynlíf? Annars vegar dregur það úr ákveðinni streitu sem er oft óorðuð og eykur oft eftirvæntingu, tilhlökkun og nánd.


Setjum sem dæmi að par hafi tekið frá tíma fyrir kynlíf á morgun, það er mjög líklegt að bæði séu með hugann við það á einhvern hátt. Líkur eru á að báðir vandi sig í samskiptum, skapi eftirvæntingu og spenni. Meiri líkur eru á að skilaboðin séu hlýrri og fólk sendi hvort öðru boð um að það hafi áhuga á viðkomandi og hlakki til. Sumt fólk tekur ákveðin tíma til að finna hjá sér löngun í kynlíf og þá er ráðrúm í að búa það rými til þess.


Þegar við hugsum um deit á fyrstu stigum sambands, þá má kannski segja að það sé langur dagur fyrir skipulagt kynlíf svo skipulagt kynlíf hjá pörum ætti ekki að geta verið minna spennandi.


Margir hafa líka upplifað að þegar kynlíf er á dagskrá að þá er líklegra að fólk tali um kynlífið sitt eða ræði um hvað það fílar eða vill gera meira af eða prófa eða breyta til og þannig því það er uppi á borðum.


Flestir taka smá tíma í að komast upp á lagið með þetta, svo það er gott að reyna að prófa nokkrum sinnum og sjá svo hvað manni finnst í staðinn fyrir að gefast upp á hugmyndinni strax.


Mér þætti gaman að heyra frá þeim sem hafa prófað og heyra um þeirra reynslu.


Mynd @Becca Tapert

159 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page