Sumarfríið byrjað með allri sinni fallegu birtu. Fyrir flest börn er þetta yndislegur tími, börnin mín geta yfirleitt ekki beðið eftir sumarfríum. Þegar líða fer að skólaslitum bíða þær eftir því að komast í frí. Því getur fylgt blendin tilfinning þó að ég geti játað að mér finnist gott að vera í fríi með fjölskyldunni ásamt öllu því sem tilheyrir.
Það eru einhvern veginn allir slakari, minna í gangi, meira af því sem þeim þykir notalegt sem er oftar en ekki bara eitthvað grín í garðinum og nágrenninu. Skipulögðum tómstundum fækkar og verkefnum okkar foreldranna líka.
Þegar ég hef spurt börnin mín hvað sé skemmtilegast við að vera í fríi segja þær yfirleitt að við foreldrarnir séum skemmtilegri og nennum að gera meira með þeim. Yngsta dóttir mín segir oft að hún eigi enga sérstaka uppáhaldsminningu, öll frí eru best því þá erum við skemmtilegri. Ég hef lært með tímanum að taka myndir af þessum litlu stundum því þær reynast oft ansi dýrmætar. Frí geta fært okkur betri og meiri tengingu. Tengslagetan okkar er nefnilega oftast í takt við álagið sem er í gangi, þegar minna er um að vera þá er auðveldara að gefa af sér og leika sér. Frí sem felur í sér hvíld, hvernig sem fjölskyldan nærist í hvíld er mikilvægt og frí með minnkaðri streitu enn mikilvægara.
Frí geta líka verið stressandi og tekið á sem getur skapað fjarlægð. Álag að finna afþreyingu ef börn eru í fríi en ekki forráðamenn, börnin vaka lengur, eru meira í reiðileysi og skapsveiflurnar meira áberandi. Stundum upplifir maður líka kröfu og pressu um að allt eigi að vera svo dásamlegt og gefandi sem hefur frekar áhrif í hina áttina, maður upplifir þreytu og hlutirnir verða yfirþyrmandi.
Það sem hefur gefist okkur vel í fríum er að hafa ákveðna dagskrá sem allir eru meðvitaðir um hvernig er og það er gott að ræða dagskrána eða planið oft við hvern og einn, það eru oft pælingar um eitt og annað og við fullorðna fólkið ekki alltaf meðvituð um hvað þau eru að spá eða muninn á því hvernig við sjáum hlutina fyrir okkur og hvað þau eru að gera sér í hugarlund.
Okkur finnst notalegt að hafa nægan tíma inn á milli til þess að ,,gera ekki neitt" sama hvort það er að liggja í sófanum, vera úti að sulla í vatni eða sandi að þá er nægur tími til að skipta á milli.
Við höfum líka lært að fjölskyldusamveran getur verið krefjandi fyrir alla og því mikilvægt að allir geti fengið andrými sem þeir þurfa án þess að fá ákúrur fyrir og það er mismikið eftir einstaklingum í fjölskyldunni hjá okkur.
Það sem hefur reynst okkur vel með okkar stálpuðu börn er:
- gera ráð fyrir að þau komi með
- allir geta gert ráð fyrir að eitthvað sem þau langar mest sé gert (innan marka auðvitað)
- símatími er takmarkaður í samverustundum og allir koma að ákvörðun hvernig og hvenær, í síðasta fríi var það til kl 19.00 á kvöldin
- gera ráð fyrir smá pirring, ósætti og óánægju, það er hluti af ferlinu
- segja oftar já en maður gerir alla jafna
- bjóða upp á meiri samveru og leik sjálfur
- taka skýrt frá tíma fyrir sig og gefa börnunum færi á slíku sjálfur
Comments