top of page

Afbrýðissemi í samböndum

Afbrýðissemi er vel þekkt í sögunni og mörg okkar þekktustu ritverk taka á afbrýðissemi. Sumir myndu jafnvel halda því fram að henni sé hampað sem ást.


Afbrýðissemi í samböndum, er yfirleitt tengt þriðja aðila eða hugsuninni um þriðja aðila þ.e. afbrýðissemi blossar oft upp þegar við upplifum óöryggi í tengslum við einhvern/eitthvað sem við teljum tilheyra okkur.

Afbrýðissemi vaknar yfirleitt þegar okkur finnst sambandinu okkar ógnað, áþreifanlega eða ekki, og við jafnvel óttumst að missa viðkomandi. Þessi tilfinning er mjög sterk og getur auðveldlega heltekið mann.


Gottman og fleiri hjónabandsráðgjafar hafa bent á að afbrýðissemi er heilbrigð tilfinning sem vaknar þegar við efumst. Við erum mjög berskjölduð í ástarsambandi og fáir geta hreyft við tilfinningalífi manns á sama hátt og makinn, til hins betra og hins verra.


Því er mjög mikilvægt að skilja tilfinninguna, vita hvaðan hún kemur og stýra henni því þó tilfinningin sé heilbrigð og viðbúin þá er fátt sem eyðileggur sambönd jafnhratt og óstjórnleg afbrýðissemi, sem svo getur birst í ógnarstjórn og vænisýki. Afbrýðissemi getur verið ein birting ofbeldis.


En afbrýðissemi verður líka að skilja út frá samhengi því hafi par gengið í gegnum svik og leynd í sambandi, svo sem framhjáhaldi eða óheiðarleika á öðrum sviðum er afbrýðissemin skiljanlegri í samhenginu og byggð á reynslu og upplifun sem hefur skaðað sambandið og traustið sem í því ríkti.


Afbrýðissemi er ekki síst persónuleg áskorun að takast á við og er meira áberandi þegar fólk er að takst á við áskoranir í tengslum við sjálfsmynd og sjálfstraust. Það getur verið erfitt að upplifa sig elskaðan og eiga traust einhvers ef maður trúir því illa að maður sé elskuverður og aðlaðandi og endurtekið neikvætt sjálfstal getur ýtt undir afbrýðissemi.


Triggerar eða kveikjur í orðum og aðstæðum geta komið afbrýðissemi af stað og því mikilvægt að þekkja triggerana sína og vita hvernig maður vill bregðast við þeim og ekki síst hvaðan þeir koma. Trigger kveikir í tilfinningum og hugsunum okkar, en er ekki sannleikur eða staðreynd.


Flest sambönd setja sér sáttmála í upphafi, ákveða hvernig leikreglur sambandsins eru en uppfæra þær svo ekki þegar líður á. Skýrar og heilbrigðar línur eru mjög mikilvægar í samböndum.

Hvernig samtal er í lagi?

Hvaða aðstæður eru í lagi?

Hvaða tengingar eru í lagi?


Afbrýðissemi sem stýrt er í heilbrigðan farveg byggir á trausti og opnu samtali endurtekið og ítrekað. Þegar fólk hefur að leiðarljósi að auka traust, virðingu og byggja þannig ást styrkir maður samband til frambúðar.



Recent Posts

See All
bottom of page