Fæðingarþunglyndi - kvíði eftir fæðingu. Þetta eru svo gildishlaðin og skrýtin orð. Þunglyndi í kjölfar fæðingar? Mér vefst alltaf tunga um tönn með þessi orð því mér finnst þau ekki ná utan um tímabilið sem um er rætt. Það breytir kannski ekki upplifuninni né einkennunum. Mér finnst að orðin sem við notum um líðan eigi að vera auðskiljanleg.
Kannski ertu að velta því fyrir þér hvort að þú sért með einkenni fæðingarþunglyndis, kannski ertu að upplifa meiri kvíða en þú hefur áður gert í leit að svörum. Svörin eru þarna úti, upplýsingarnar eru til staðar og góðu fréttirnar eru að það er svo oft hægt að bæta líðan sína frekar hratt eftir barnsburð. Eiginlega magnað.
Hver eru einkenni fæðingarþunglyndis? Ég ætla að lista þau upp hér að neðan en langar að nefna að einkenni og birtingarmynd vanlíðunar eru ólík frá einni manneskju til annarrar. Stundum eru ákveðin einkenni mjög áberandi, stundum finnur fólk fyrir öllum einkennunum. Fæðingarþunglyndi er líka viðvarandi líðan þe einkenni hafa verið til staðar í tvær vikur eða lengur. Það er alltaf eða oftast erfitt að fara fram út og einkennin gera manni erfitt fyrir að framkvæma einföldustu hluti.
Hinsvegar er eðlilegt að sveiflast í líðan og eiga góða daga og slæma. Tíminn eftir að maður eignast barn getur verið tilfinningaríkur og flöktandi en stóri þátturinn er viðvarandi líðan.
Svo hvernig upplifun er að vera með fæðingarþunglyndi? Ef þú hefur eignast barn innan 12 mánaða og finnur fyrir einhverjum eftirtalinna einkenna.
Flest er yfirþyrmandi og þér líður eins og þú ráðir alls ekki við aðstæður og heldur jafnvel að það verði aldrei. Þú ert jafnvel að velta því fyrir þér af hverju þú varðst móðir til að byrja með. Hér er mikilvægt að muna að mörgum finnst foreldrahlutverkið yfirþyrmandi til að byrja með en það venst fljótt.
Sektarkennd, oft fylgir þrúgandi sektarkennd og samviskubit. Manni líður eins og barninu sé betur borgið hjá öðrum. Manni finnst eins og maður ætti að hafa betri tök á móðurhlutverkinu. Maður finnur til sektarkenndar gagnvart barninu yfir því að líða illa og veltir því stundum fyrir sér hvort barninu væri betur borgið án manns.
Tómleikatilfinning og doði.
Sorg og leiði sem gnístir inn að beini. Margir eru mjög grátgjarnir og gráta af minnsta tilefni og skilja oft ekki af hverju tárin trilla.
Ringulreið, erfitt að skilja hvað er að gerast og átta sig alveg á aðstæðum.
Allt fer í taugarnar á manni. Engin þolinmæði, lítil mýkt. Maður finnur fyrir gremju og pirringi gagnvart maka, barni og jafnvel vinum og ættingju. Margir upplifa stjórnleysi og ótrúlega reiði.
Tengslavöntun, manni finnst maður aftengdur barninu sínu og skilur það jafnvel illa. Allt tal um móðurást og þessa brjáluðu tengingu er manni fjarræn. Sumir finna sterkt fyrir þessu aðrir alls ekki.
Vonleysistilfinning þar sem manni líður eins og aðstæður muni aldrei batna. Margir upplifa sig máttvana og veika og upplifa sig sem algjör mistök.
Matarlistin breytist, annað hvort minnkar hún eða eykst.
Svefninn ruglast. Erfitt að sofa þegar tími gefst til, erfitt að sofa með barninu. Eða öfugt. Erfitt að halda sér vakandi, of mikill svefn. Sumar sofna auðveldlega en vakna á nóttunni og geta ekki sofnað aftur sama hversu þreytt. Svefninn er í rugli og það er ekki hægt að skrifa það á umönnun ungbarns.
Einbeitingarskortur. Erfitt að halda fókus og muna hvað maður ætlaði að segja eða gera. Margir upplifa sig í þokuástandi og finnst erfitt að taka ákvarðanir.
Aftenging. Manni finnst maður vera ótengdur fólkinu í kringum sig og sumum finnst vera ósýnilegur veggur á milli sín og annarra í kring.
Alveg sama hvað þá getur maður ekki hrist af sér tilfinninguna. Allt ætti að vera í topplagi en bara er það ekki. Hreyfing, mataræði, jóga, húsið er hreint en líðanin er slæm og alveg sama hvað það er ekki hægt að hrista þessa tilfinningu af sér.
Ótti við að vera dæmd-/ur. Ótti við að segja frá því fólk muni dæma. Ótti við að barnið verði tekið af manni.
Sumir hugsa með sér að það gæti verið betra fyrir alla ef maður myndi láta sig hverfa. Flytja einn í burtu, keyra útaf eða finna einhverja leið til að láta líðanina fara.
Áhyggjur af því að vera breytt og týnd að eilífu. Fólki finnst eins og það finni aldrei sjálft sig og gamla drifkraftinn sinn aftur. Fólki finnst eins og þessi líðan séu ný karaktereinkenni.
Kannski tengiru við öll þessi einkenni, flest eða sum. Mörgum finnst skrítið að lesa svona texta og upplifa að einhver hafi getað lesið hugsanir þeirra. Því fer fjarri. Ástæða þess að hægt er að lista upp svona líðan er af því að hún er nokkuð algeng og þekkt. Talið er að 15-20 % nýrra mæðra upplifi fæðingarþunglyndi (prósentan er aðeins lægri hjá pabbanum/ hinu foreldrinu).
Ef þetta á við um þig eða einhvern sem þú þekkir gefur listinn vonandi smá von. Það er hægt að nálgast stuðning víða og fegurðin í því að hafa eignast barn og vera svona opinn og hrár er að betri líðan kemur oft tiltölulega hratt. Ekki endilega línulega og strax kemur örugglega.
Fyrstu skrefin eru að átta sig á líðan sinni og fræðast um hana. Þá er öflugt að setja orð á líðan sína við sína nánustu hafi það ekki verið gert nú þegar.
Heilsugæslan á að grípa nýja foreldra hratt og vel og Miðstöð foreldra og barna er dásamlegt úrræði.
Það eru sjálfstætt starfandi meðferðaraðilar víða sem oft er hægt að komast að hjá tiltölulega hratt. Veldu einhvern sem þér líkar vel við, sem hefur sérþekkingu og skilning á ferlinu og þú finnur að þér miðar áfram með.
Comments